Samþykktir félagsins


I. Kafli: Heiti félagsins, aðsetur og hlutverk

1. gr.

Félagið heitir MPM félagið, kt. 440708-1020. Aðsetur þess er hjá Tækni- og verkfræðideild Háskólans í Reykjavík, Menntavegi 1, Reykjavík og varnarþing í Reykjavík.

2. gr.

Tilgangur félagsins og hlutverk er að stuðla að faglegum, félagslegum og efnahagslegum ávinningi þeirra sem útskrifast hafa með MPM eða sambærilega prófgráðu sbr. gr. 4.1 og að styðja við áframhaldandi þróun og framgöngu slíks náms á Íslandi.

3. gr.

Tilgangi sínum hyggst félagið ná með því að:

• standa vörð um sameiginlega hagsmuni félagsmanna,
• efla og viðhalda tengslaneti félagsmanna á milli,
• stuðla að fræðslu og upplýsingamiðlun til félagsmanna og
• vera til ráðgjafar um þróun MPM náms og öðru sambærilegu námi á Íslandi og
• viðhalda tengslum milli félagsins og skóla.

II. Kafli: Aðild og árgjald.

4. gr.

Allir þeir sem útskrifast með MPM prófgráðu eða sambærilega samkvæmt gr. 4.1 og þeir sem eru skráðir nemar á lokamisseri slíks náms eru sjálfkrafa skráðir á félagalistann sé það mögulegt. Greiði félagsmenn ekki árgjald verða þeir skráðir úr félaginu, sbr. 5. gr. samþykktanna.

Hægt er að sækja um aðild með því að óska eftir því skriflega við stjórn MPM félagsins. Umsóknir skulu samþykktar, uppfylli umsækjandi skilyrði félagsaðildar sbr. gr 4.1. og hafi hann greitt árgjaldið. Stjórn félagsins skal kynna starfsemi þess fyrir MPM nemum á 4. misseri námsins.

4.1 gr.

Stjórn MPM félagsins metur umsóknir í félagið. Til að prófgráða teljist viðurkennd af MPM félaginu og þar með gild til aðildar þarf hún að lágmarki að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

• Námið skal vera meistaranám á háskólastigi í verkefnastjórnun.
• Námið skal minnst vera 90 ECTS einingar.

 5. gr.

Árgjald félagsmanna skal ákveðið á aðalfundi félagsins

Greiðsla félagsgjalds telst staðfesting á inngöngu í félagið og áframhaldandi félagsaðild. Verði árgjald ekki greitt innan tveggja mánaða frá gjalddaga greiðsluseðils skoðast greiðslufall sem yfirlýsing um úrsögn úr félaginu. Reikningsár félagsins er frá 1. maí – 30. apríl.

III. Kafli: Félagsfundir og aðalfundir.

6. gr.

Félagsfundi skal halda samkvæmt ákvörðun stjórnar eða að ósk a.m.k. 20% félagsmanna í félaginu. Ósk félagsmanna skal sett fram skriflega við stjórn og fundarefni tilgreint. Á félagsfundum má taka fyrir fræðslumál, kynningarmál og almenn hagsmunamál, önnur en þau sem taka skal fyrir á aðalfundi.

7. gr.

Aðalfundi félagsins skal halda í maí ár hvert.

Á aðalfundum skulu tekin fyrir þessi mál:

• skýrsla stjórnar fyrir næstliðið starfsár og umræður um hana,
• framlagning ársreiknings fyrir næstliðið reikningsár til samþykktar og umræður um hann,
• kosning aðalmanna í stjórn,
• kosning varamanna í stjórn,
• kosning skoðunarmanns og varamanns hans,
• ákvörðun félagsgjalda,
• mál sem tiltekin eru í fundarboði og
• önnur mál.

Aukaaðalfund skal halda eigi síðar en 6 vikum eftir aðalfund, ef ekki næst að ljúka öllum málum sem fyrir aðalfundi liggja. Á aukaaðalfundi má taka fyrir allt það sama og á aðalfundi.

Ef brýna nauðsyn ber til að halda aukaaðalfund af öðru tilefni, t.d. til breytinga á samþykktum þessum eða til að bera upp brýn hagsmunamál félagsins, sem eðlilegt er að aðalfundur taki afstöðu til, má á öðrum tímum boða til aukaaðalfundar.

Aukaaðalfund skal ávallt boða á sama hátt og með sama fyrirvara og aðalfund, sbr. 8. gr. samþykktanna.

8. gr.

Félagsstjórn skal boða til aðalfundar og félagsfunda með tilkynningu til hvers félagsmanns bréflega eða með tölvupósti. Það er á ábyrgð hvers félagsmanns að félagsstjórn hafi undir höndum rétt heimilisfang og netfang hans. Aðalfund skal boða með minnst fjórtán daga fyrirvara en félagsfundi með minnst sjö daga fyrirvara. Fundarefnis skal getið í fundarboði með framlagðri dagskrá.

Aðalfundur og aukaaðalfundur eru lögmætir ef löglega er til þeirra boðað. Verði fundur ólögmætur vegna annmarka að þessu leyti skal boðað til nýs fundar innan mánaðar með fjórtán daga fyrirvara.

Atkvæðisrétt á fundum félagsins fundum hafa þeir félagsmenn sem greitt hafa félagsgjald eigi síðar en 4 vikum fyrir fund. Við ákvarðanatöku á fundum félagsins ræður afl atkvæða úrslitum, nema þegar um er að ræða breytingar á samþykktum þessum eða slit félagsins. Um slíkt fer skv. 11. og 13. gr.

Ákvarðanir og eftir atvikum umræður aðalfundar skal bóka í fundargerðarbók félagsins.

IV. Kafli: Stjórn félagsins.

9. gr.

Stjórn félagsins skal skipuð sex aðalmönnum og einum varamanni, kjörnum á aðalfundi til eins árs í senn. Stjórnin skiptir með sér embættum formanns, féhirðis, ritara, oddvita fræðslunefndar og vefstjóra, þeir sem ekki veljast í ákveðið embætti teljast almennir stjórnarmenn. Hlutkesti skal ráða ef atkvæði falla jöfn við ákvörðun um skiptingu embætta. Stjórn félagsins stýrir málefnum félagsins milli aðalfunda og gætir hagsmuna þess gagnvart þriðja aðila. Varamaður er staðgengill stjórnarmanns ef aðalmaður í stjórn hættir á starfsárinu, varamaður tekur þá sæti viðkomandi og gegnir því til næsta aðalfundar.

10. gr.

Stjórnarfundir eru lögmætir ef meirihluti stjórnarmanna sækir fund. Afl atkvæða ræður úrslitum við afgreiðslu mála. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns úrslitum, nema þegar stjórn skiptir með sér embættum, sbr. 9. gr. samþykkta þessara. Formaður boðar til stjórnarfunda. Fundargerðir skulu haldnar um ákvarðanir sem teknar eru á stjórnarfundum. Fundargerðir skulu aðgengilegar félagsmönnum, ef þeir óska þess.

V. Kafli: Ýmis ákvæði

11. gr.

Samþykktum þessum má breyta á lögmætum aðalfundi eða aukaaðalfundi og þarf til þess 2/3 hluta greiddra atkvæða. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins þurfa að berast stjórn þess tveimur mánuðum fyrir aðalfund. Getið skal um það í fundarboði að tillögur um breytingar á samþykktum liggi fyrir og hverjar þær eru.

12. gr.

Einfaldan meirihluta atkvæða þarf til samþykktar annarra tillagna en breytinga á samþykktum þessum og tillagna um slit félagsins, sbr. 13. gr. samþykktanna.

13. gr.

Félaginu verður einungis slitið ef tillaga um það er samþykkt á aðalfundi eða aukaaðalfundi félagsins. Tillaga um félagsslit nær ekki fram að ganga nema hún hljóti stuðning 2/3 hluta greiddra atkvæða á fundi þar sem a.m.k. 2/3 félagsmanna eru mættir. Miða skal við skráningu félagsmanna eins og hún er fjórum vikum fyrir fundardag.

14. gr.

Verði ákveðið að leggja félagið niður, skal eignum þess varið til almennra verkefna í samræmi við tilgang og starfsemi félagsins, sbr. samþykktir þessar og samþykkt aðalfundar eða aukaaðalfundar.

Þannig samþykkt á aðalfundi félagsins í Reykjavík 31. ágúst 2011.

One thought on “Samþykktir félagsins

  1. Pingback: MPM félagið » Blog Archive » Aukaaðalfundur MPM félagsins 31. ágúst 2011