ISAL – straumlínurekstur og stöðugar umbætur

Þriðjudaginn 3. apríl næstkomandi heimsækir MPM félagið Rio Tinto Alcan

Sigurður Egill Þorvaldsson, leiðtogi straumlínureksturs, mun fjalla um innleiðingu LEAN aðferðafræðinnar og áhrif hennar á daglegan rekstur.

Anna María Guðmundsdóttir, leiðtogi innkaupa í þróunarverkefni ISAL, mun segja frá umfangsmiklu umbótaverkefni sem nú er í gangi í álverinu í Straumsvík. Verkefnið gengur út á að auka framleiðslu álversins um 20% og að breyta framleiðsluafurð álversins í verðmætari afurð.

ISAL hefur fyrst fyrirtækja á Íslandi skipulagt og hrint í framkvæmd markvissri þjálfun fyrir starfsmenn sína í Lean Six Sigma, aðferðafræði sem er að festast í sessi víða erlendis og á að tryggja stöðugar umbætur á verkferlum og aðferðum í hvers kyns fyrirtækjum. Starfsmenn sem ljúka Black Belt þjálfun í aðferðafræðinni munu framvegis sinna umbótaverkefnum í fullu starfi og starfsmenn sem hljóta Green Belt þjálfun munu framvegis vinna að umbótaverkefnum samhliða starfi sínu.

ISAL er með vottuð gæða-, umhverfis- og öryggisstjórnunarkerfi samkvæmt alþjóðlegu stöðlunum ISO 9001, ISO 14001 og OHSAS 18001. Markvissar stöðugar umbætur eru jafnframt ein af meginstoðum fyrirtækisins, auk þess sem unnið er að því að innleiða aðferðafræði straumlínurekstrar.

Staður: Alcan Straumsvík, Hafnarfirði
Tími: Þriðjudaginn 3. apríl, kl. 8:15.

Boðið verður uppá léttar veitingar á meðan á kynningu stendur.

Vinsamlegast tilkynnið þátttöku fyrir kl. 12:00, mánudaginn 2.apríl 2012 með því að senda póst á mpmfelag@mpmfelag.is

 

Yfirlit yfir viðburðaríkt starfsár

MPM félagið hefur staðið að spennandi viðburðum á starfsárinu og lofar áframhaldandi fræðsludagskrá sem enginn skal láta fram hjá sér fara.

Á haustmánuðum 2011 hóf Steinunn I. Stefánsdóttur M.Sc í viðskiptasálfræði, fræðsludagskrána og flutti við góðar undirtektir hádegisfyrirlesturinn Samskiptasnilld. Erindið snéri að mannlegu þáttum verkefnastjórnunar og fór Steinunn í saumana á samskiptaformum stjórnenda og starfsmanna.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn með Ívari F. Finnbogasyni í fararbroddi stóðu í október fyrir ævintýralegum hádegisfyrirlestri þar sem kynnt var verðlaunað þjálfunarkerfi fyrirtækisins. Fyrirtækið hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín og var áhugavert að heyra frá störfum þeirra.

Í lok nóvember flutti DR. Hans Thamhain vel sótt erindi um hlutverk leiðtoga í verkefnaumhverfi nútímans. Dr. Hans fjallaði þar um verkefnastjórann og hvernig hann næði árangri með óhefðbundnum aðferðum og tækjum og má ætla að margir hafi geta nýtt sér reynslu þessa meistara.

Nýja árið tók á móti okkur með fyrirtækjaheimsókn í Marel . Þar var boðið uppá hádegisverð á meðan verkefnastjórarnir Valgarð Thoroddsen og Steinunn Linda Jónsdóttir sögðu félagsmönnum frá störfum þeirra hjá fyrirtækinu. Heimsóknin var skemmtileg og alltaf lærdómsríkt að kynna sér hvernig verkefnastjórar takast á við ýmiss konar áskoranir.

Drottning spennusagnanna, Yrsa Sigurðardóttir flutti áhugavert hádegiserindi á dögunum þar sem hún sagði MPM félögum frá þeim aðferðum sem hún beitir við ritstörf sín.

Að lokum hélt Benjamin F. Lund lifandi fyrirlestur nú í byrjun mars mánaðar um samningaviðræður. Mikil ánægja var með erindið sem um 60 manns hlýddi á og hvetjum við ykkur kæru félagsmenn til að fylgjast með því við í stjórn MPM félagsins lofum spennandi fræðsludagskrá það sem eftir er starfsársins.

Kveðja,
Fræðslunefnd MPM félagsins

Annar vel heppnaður viðburður hjá MPM félaginu!

Föstudaginn 2. mars hélt Benjamin F. Lund fyrirlestur fyrir MPM félaga og fleiri um samningaviðræður. Fyrirlesturinn var mjög lifandi og skemmtilegur.

Benjamin ræddi um samningaviðræður, hvernig best er að undirbúa þær og að flestir væru í samningaviðræðum á hverjum degi, t.d. við börnin sín og maka, við samstarfsfélaga. Benjamin ræddi einnig áhættur í samningaviðræðum og hvernig hægt er að meta þær. Hann benti á að menning spilar stórt hlutverk í samningaviðræðum og kynnti módel sem hægt er að styðjast við varðandi menningu og persónueinkenni fólks. Um 60 manns mættu á fyrirlesturinn og tóku flestir virkan þátt í fyrirlestrinum með spurningum og hugmyndum. Almenn ánægja var með viðburðinn og við þökkum Benjamin kærlega fyrir að koma til okkar.

Við þökkum Auði Hrefnu Guðmundsdóttur, verkefnastjóra MPM námsins hjá HR, fyrir veitta aðstoð við fyrirlesturinn. Hún sá um að finna fyrir okkur flottan sal í HR og sá til þess að allt væri til staðar fyrir Benjamin.

Takk fyrir okkur!

Hér eru nokkrar myndir: