Íslenskir fjallaleiðsögumenn

Áherslur og áskoranir í þjálfun leiðsögumanna í ævintýraferðum

Miðvikudaginn 5. október 2011 býður MPM félagið félagsmönnum uppá hádegisfyrirlestur með Ívari F. Finnbogasyni frá Íslenskum Fjallaleiðsögumönnum. Þar sem kynnt verður verðlaunað þjálfunarkerfi fyrirtækisins og þær áherslur sem fyrirtækið hefur í þjálfunarmálum sínum.

Íslenskir fjallaleiðsögumenn er framsækið fyrirtæki sem sérhæfir sig í skipulagningu ferða allt frá auðveldum dagsferðum til erfiðra heimskautaleiðangra með mottóið Ævintýri fyrir alla að leiðarljósi. Markmið fyrirtækisins hafa frá upphafi verið að opna augu fólks fyrir fjallaferðum, stuðla að verndun viðkvæmrar náttúru og að auka gæði og fagmennsku í leiðsögn. Markviss uppbygging fyrirtækisins hefur gert það að leiðandi ferðaþjónustufyrirtæki í þróun nýrra ferða, umhverfismálum, menntun starfsmanna og öryggismálum. Íslenskir Fjallaleiðsögumenn hafa hlotið fjölda viðurkenninga fyrir störf sín og meðal þeirra má nefna Frumkvöðlaverðlaun Icelandair árið 2006 og nú síðast árið 2010 Nýsköpunarverðlaun og Starfsmenntaviðurkenningu SAF.

Staðsetning: Háskólinn í Reykjavík, málstofa M104
Tími: Miðvikudagurinn 5.október 2011 kl. 12:00 – 13:00

Boðið verður uppá súpu og blandaðar samlokur á 1490 kr.

Vinsamlegast staðfestið þátttöku fyrir þriðjudaginn 4.október.

Samskiptasnilld var snilld

Steinun I. Stefánsdóttir
Steinunn I. Stefánsdóttir

Fyrsti viðburður fræðslunefndar MPM félagsins, fimmtudaginn 15. september, heppnaðist vel og var mjög góð mæting. Steinunn I. Stefánsdóttir flutti hádegiserindið samskiptasnilld sem snéri að mannlegum þáttum verkefnastjórnunar og fór í saumana á samskiptaformum stjórnenda og starfsmanna. Fólk var afar ánægt með fyrirlesturinn og var aðstaðan og maturinn í Þjóðmenningarhúsinu til fyrirmyndar. Steinunn var góður fyrirlesari og sköpuðust miklar og skemmtilegar umræður sem félagsmenn tóku virkan þátt í.

Steinunn Inga er með B.A. gráðu í sálfræði frá Háskóla Íslands , M.Sc. í viðskiptasálfræði (business psychologist) frá University of Westminster í London og M.Sc. í streitufræðum (psychobiology of stress) frá University of Surrey Roehampton í London.

Slæður úr fyrirlestrinum má nálgast hér.

Fræðsludagskrá vetrarins

MPM félagið vekur athygli félagsmanna á því að dagskrá haustsins liggur fyrir, með fyrirvara um breytingar. Í boði er virkilega fjölbreytt og spennandi dagskrá: Við ætlum að verða snillingar í samskiptum, læra hvernig þjálfa á leiðsögumenn í ævintýraferðum, heyra hvernig fyrirtæki tekst að vera fyrirtæki ársins hjá VR tvö ár í röð og kynnast framkvæmd og notkunar á Lean Six Sigma í verkefnastjórnun. Lesa má frekar um dagskrána hér.

Aukaaðalfundur MPM félagsins 31. ágúst 2011

Þann 31. ágúst síðastliðinn var haldinn aukaaðalfundur MPM félagsins í húsnæði Háskólans í Reykjavík, nýja heimili MPM námsins.  Boðað var til aukaaðalfundar til að fara yfir tillögur að breytingum á samþykktum félagsins í kjölfar breytinga á MPM náminu.

Gestur fundarins var dr. Helgi Þór Ingason og ræddi hann breytingarnar sem orðið hafa.  Breytingarnar gengu fljótt og vel fyrir sig og fer núverandi námsár vel af stað.  Nýr árgangur hóf nám í haust í Háskólanum í Reykjavík og ákveðið var að flytja annars árs nemana einnig þangað.  MPM námið er því alfarið hjá Háskólanum í Reykjavík.

Aðalfundarefni fundarins voru tillögur að breytingum á samþykktum félagsins og spunnust líflegar umræður um markmið og hlutverk félagsins. Ljóst var að fundarmenn voru sammála um eðli breytinganna og voru þær samþykktar með smávægilegum breytingum á orðalagi og orðavali.  Búið er að uppfæra samþykktirnar í samræmi við niðurstöðu fundarins og sjá má þær hér.

MPM félagið hvetur félagsmenn til að kynna sér samþykktirnar og þakkar fyrir góðar ábendingar og umræður á fundinum.

Breytingar á umgjörð MPM námsins

Nú hafa verið ákveðnar breytingar á umgjörð MPM náms og viljum við upplýsa alla MPM félaga um þær þar sem þetta er mál sem varðar okkur öll.

Breytingarnar felast í því að Helgi Þór og Haukur Ingi hafa sagt upp störfum hjá Háskóla Íslands og munu þeir ganga til liðs við Háskólann í Reykjavík og byggja upp MPM nám þar. MPM námið við Háskóla Íslands mun ekki taka inn nýja nemendur í haust en hópurinn sem er á seinna árinu mun klára námið og útskrifast frá Háskóla Íslands 2012. MPM nám verður í boði við Háskólann í Reykjavík frá og með næsta hausti. Þessar breytingar hafa engin áhrif á nám núverandi nemenda í MPM náminu, Helgi Þór og Haukur Ingi munu áfram sinna námskeiðum og annast alla umsýslu þeirra (MPM 2010-2012).

Vegna breytinganna mun félagið bjóða upp á upplýsingafund fyrir félagsmenn í hádeginu á mánudaginn kemur (27. júní 2011, kl. 12:00). Þá mun Helgi Þór mæta og verður hægt að spyrja hann nánar út í það sem ykkur liggur á hjarta. Fundurinn verður í húsnæði Endurmenntunar, að Dunhaga 7.

Þessi breyting hefur engin áhrif á starfsemi MPM félagsins og vinnur stjórnin nú hörðum höndum að því að leggja drög að glæsilegri dagskrá fyrir næsta vetur!

Ef þið hafið einhverjar spurningar varðandi þetta eða annað, eru félagar hvattir til að hafa samband við okkur með því að senda póst á mpmfelag@gmail.com.